George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hélt í gærkvöldi ræðu sína á flokksþingi repúblikana í New York, eina þá mikilvægustu í baráttu hans fyrir endurkjöri í forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum í haust. Ræðan var flutt á lokadegi þings Repúblikanaflokksins. Í henni varði Bush gerðir sínar, sérstaklega stríðsreksturinn í Afganistan og Írak, og kynnti helstu stefnumál sín fyrir næstu fjögur árin.
Bush hét því að hann myndi áfram „taka hart á“ hryðjuverkum um heim allan, og sagðist ætla að gera Bandaríkin öruggari. Þá gerði hann harða hríð að John Kerry, mótframbjóðanda sínum úr röðum demókrata.
Nýjar skoðanakannanir benda til þess að mjótt sé á mununum milli frambjóðendanna tveggja, en kosið verður 2. nóvember í haust. Bush tók þáði formlega tilnefningu flokks síns sem forsetaefni þess í gær og sagði flokkssamkundunni í New York að hann „færi fram sem forsetaefni með skýra og jákvæða áætlun um að stuðla að öruggari heimi.“
Eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001, hefði stjórn sín „barist gegn hryðjuverkamönnum um heim allan.“ Fjárframlög til öryggismála innan Bandaríkjanna hefðu verið þrefölduð, hernum umbylt og leyniþjónustur efldar, sagði Bush á flokksþinginu.
„Við sækjum fram og ráðumst á hryðjuverkamenn í öðrum löndum, svo við þurfum ekki að horfast í augu við þá hér heima,“ sagði Bush. Hann sagði að al-Qaeda, hryðjuverkasamtök Osama bin Laden hefðu verið hrakin á brott frá Afganistan og leifar þeirra ættu nú undir högg að sækja í Pakistan og Sádi-Arabíu.
Þá hefði Líbýa hætt við að verða sér úti um gereyðingarvopn, íraskir herinn berðist fyrir frelsi og meira en þrír af hverjum fjórum helstu liðsmönnum al-Qaeda væru í haldi eða hefðu verið drepnir.
Bush sagði ákvörðunin um að fara í stríð í Írak hafa verið þá erfiðustu sem hann hefði tekið en það hefði verið nauðsynlegt til þess að verja Bandaríkin. Hann sagði að 50 milljónir manna hefðu fengið frelsi vegna ákvörðunar hans um að ráðast inn í Írak og Afganistan.
Fjöldi manna var staddur utan við flokksþingið til þess að mótmæla stefnu forsetans. Mikið var um götumótmæli þá fjóra daga sem flokksþingið stóð yfir.