Bloggarar veigamiklir í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum

Vefdagbækur, eða svokölluð blogg, eru nú notuð í vaxandi mæli í kosningabaráttunni vestanhafs. Liðsmenn beggja fylkinga; demókrata og repúblikana, skrifa daglega á vefsíður sínar og nota þær til að safna peningum og stuðningi.

Bloggarar beggja liða fjalla um fréttir hefðbundinna fjölmiðla og gagnrýna þær. „Þetta fólk hefur sterkar stjórnmálaskoðanir sameiginlegar. Að mörgu leyti les maður það sem pólitísku bloggararnir skrifa vegna þess að maður hefur áhuga á skoðunum þeirra og því sem þeir lesa,“ segir Howard Finberg hjá Poynter Institute í Flórída. „Þeir gegna eiginlega hlutverki ritstjóra fyrir lesandann.“

Demókratinn Howard Dean var fyrstur forsetaframbjóðenda til að nota blogg í einhverjum mæli til að vera í sambandi við stuðningsmenn sína. Hann safnaði líka tugum milljóna dollara á netinu.

Nú skrifa fjölmargir á vefinn fyrir hönd flokkanna tveggja, sem báðir buðu bloggurum að sækja landsfundi sína með öðrum fjölmiðlum. Þá hafa stórir fjölmiðlar, á borð við Wall Street Journal og MSNBC, byrjað með vefdagbækur.

Bloggararnir líta oft á það sem hlutverk sitt að benda á villur í fjölmiðlum, eins og sannaðist um daginn, þegar aðeins tók þá klukkutíma að uppgötva að skjöl CBS sjónvarpsstöðvarinnar um þjónustu Bush í þjóðvarðliði Texas væru fölsuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka