Bush segir Saddam hafa viljað framleiða gereyðingarvopn

George W. Bush
George W. Bush AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, varði innrásina í Írak í dag þrátt fyrir að bandarísk vopnaeftirlitsnefnd hafi sent frá sér skýrslu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, hafi ekki haft nein gereyðingarvopn undir höndum. Sagði Bush að Saddam hafi haft vilja og getu til að framleiða slík vopn.

„Bandaríkin eru öruggari nú þegar Saddam Hussein er í fangelsi," sagði Bush þegar hann ávarpaði blaðamenn óvænt áður en hann flaug frá Washington til Wisconsin. Hann sagði að stór hluti þeirra upplýsinga, sem leyniþjónustan hefði aflað um Írak, hefði reynst rangur og finna þyrfti ástæður þess. En Saddam hefði viðhaldið viljanum og getunni til að framleiða gereyðingarvopn.

Charles Duelfer, yfirmaður bandarískrar vopnaeftirlitsnefndar sem starfað hefur í Írak að undanförnu, afhenti öldugnadeild Bandaríkjaþings skýrslu sína í gær þar sem niðurstaðan var sú að gereyðingarvopnaáætlun Saddams Husseins hefði aðeins verið í orði en ekki á borði þegar innrásin var gerð í Írak í fyrra. Taldi Duelfer að ástæðan væri áralangar viðskiptaþvinganir sem Írakar voru beittir eftir Persaflóastríðið.

Í skýrslunni sagði að Saddam hefði beitt kröftum sínum að því að komast undan þessum viðskiptaþvingunum og hann hafi ekki viljað afla gereyðingarvopna til að beita þeim gegn Bandaríkjamönnum eða afhenda þau hryðjverkamönnum heldur til að mæta gömum óvinum sínum, Írönum og Ísraelsmönnum.

Bush sagði í dag, að Saddam hafi skipulega reynt að sniðganga viðskiptaþvinganirnar og áætlun Sameinuðu þjóðanna um að Írakar mættu selja olíu til að kaupa matvæli. „Það gerði hann með það fyrir augum, að hefja vopnaframleiðslu á ný þegar heimurinn liti í aðra átt. Hann gæti hafa komið þekkingu á framfæri við hryðjuverkamenn," sagði Bush. „Saddam Hussein var einstæð ógn, svarinn óvinur lands okkar, hann stundaði ríkisrekna hryðjuverkastarfsemi á ótryggasta svæði heims. Eftir 11. september stafaði ógn af Saddam og við því urðum við að bregðast og Bandaríkin og heimurinn eru öruggari vegna þess sem við gerðum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert