Talibanaleiðtoginn Mullah Mohammed Omar á í miklum útistöðum við helstu herstjóra sína, þar sem talibönum mistókst að spilla nýafstöðnum forsetakosningum í Afganistan, segir talsmaður bandaríska heraflans í landinu. Hann segir „alvarlega sundrungu“ í röðum talibana hafa bjargað kosningunum.
Talsmaðurinn, Scott Nelson, segist byggja staðhæfingar sínar á upplýsingum sem aflað hafi verið bæði í Afganistan og í grannríkinu Pakistan, en játar að ekki sé vitað hvar talibanaleiðtoginn felist.
Nelson segir að baráttuþrek meðal talibana hafi hnignað áberandi og svekkelsi gæti vegna óskilvirkrar forystu Omars í kjölfar kosninganna sem fóru friðsamlega fram 9. október sl.
„Það hefur veirð uppi alvarlegur ágreiningur milli Omar og foringja hans um stefnuna í framhaldi af kosningunum,“ sagði Nelson á blaðamannafundi í dag.
Nelson segir ekki vitað hvort Omar felist í Afganistan eða Pakistan en vísbendingar séu um að hann taki þátt í skipulagningu aðgerða í báðum löndum.
Yfirmenn í bandaríska heraflanum í Afganistan, sem telur 18.000 manns, sögðu í ágúst að vísbendingar væru um að fylkingar talibana væru teknar að riðlast.