Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, útskýrði fyrir kjósendum í Boca Raton í Flórída í dag hvers vegna þeir ættu að greiða John Kerry, frambjóðanda Demókrataflokksins, atkvæði í komandi forsetakosningum.
Sagði Clinton kjósendur geta valið á milli „tveggja sterkra frambjóðenda, sem báðir hafa einlæga sannfæringu og stefnumið, sem þó myndu hafa mjög ólíkar afleiðingar fyrir land og þjóð og heimsbyggðina alla“.
Fréttaskýrendur segja Clinton hafa verið óvenju fölan og grannan, enda ekki nema tæpir tveir mánuðir síðan hann gekkst undir hjartaaðgerð.
Forsetakosningarnar fara fram eftir viku og Flórída er eitt af þeim ríkjum sem útlit er fyrir að muni ráða úrslitum í kosningunum.
Mikill fjöldi stuðningsmanna Kerrys kom til að hlýða á Clinton, fremur en Kerry sjálfan, en skoðanakannanir benda til að það sem sameini stuðningsmenn Kerrys sé ef til vill fremur andúð á keppinauti hans, George W. Bush forseta, en álit þeirra á Kerry.
Í áheyrendahópi Clintons var Lisa Jackson, 44 ára Pennsylvaníukona, sem sagðist ekki hafa komið á fundinn til að hlusta á Kerry.
„Bill Clinton. Bill Clinton,“ sagði hún. „Ég get hvenær sem er fengið að sjá John Kerry, en þetta er Bill Clinton.“
Kerry hefur fengið Clinton í lið með sér nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar einmitt í þeirri von að forsetinn fyrrverandi geti laðað demókrata á borð við Jackson að kjörborðinu, demókrata sem ekki eru alltof hrifnir af frambjóðanda flokksins.