Læknar óttast að Arafat sé með hvítblæði

Hópur manna veifar til Arafats þegar hann fer um borð …
Hópur manna veifar til Arafats þegar hann fer um borð í þyrlu við höfuðstöðvar sínar í Ramallah í morgun. AP

Læknar telja að Yasser Arafat Palestínuleiðtogi kunni að vera með hvítblæði, að því er fram kemur í frétt Reuters. Hann er nú í franskri forsetaflugvél á leiðinni til Parísar, þar sem hann verður lagður inn á hersjúkrahús til meðferðar. Þyrla flutti hann frá Ramallah til Jórdaníu í morgun og var það í fyrsta skipti í tvö og hálft ár sem Arafat fékk að yfirgefa Vesturbakkann.

Reuters hefur eftir aðstoðarmönnum Arafats að hann hafi sagt „Ef Guð lofar sný ég aftur,“ áður en hann var fluttur á sjúkrabörum upp í þotuna í morgun.

„Með blóði okkar og sálu munum við styðja þig," hrópaði mannfjöldinn þegar þyrlan fór frá Ramallah með Arafat og Suha konu hans innanborðs. Suha, sem er 41 árs gömul, býr í París en kom í gær til Ramallah vegna veikinda Arafats.

Hópur háttsettra embættismanna Palestínumanna fór á eftir Arafat í annarri þyrlu en heimildarmenn segja að bæði Ahmed Qureia, forsætisráðherra, og Mahmood Abbas, fyrrum forsætisráðherra, hafi orðið eftir til að taka við stjórn heimastjórnarinnar.

Yasser Arafat.
Yasser Arafat. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert