George W. Bush hélt sigurræðu í Reagan miðstöðinni í Washington nú rétt í þessu, þar sem hann sagði að sigurinn hefði verið sögulegur. Hann þakkaði John Kerry fyrir baráttuna og sagði að stuðningsmenn demókratans gætu verið stoltir af starfi sínu. Hann þakkaði fjölskyldu sinni; eiginkonunni Lauru, dætrum sínum og foreldrum, fyrir stuðninginn. Þá þakkaði hann varaforsetanum Dich Cheney og stuðningsliði sínu fyrir starfið í kosningabaráttunni.
„Þjóð okkar hefur varið sig og varið frelsi mannkyns. Ég er stoltur af því að leiða hana. Nú hefst tímabil vonar,“ sagði Bush. „Við munum berjast við hryðjuverk af öllum krafti, svo börn okkar fái að njóta frelsis.“
Bush talaði sérstaklega til þeirra sem kosið höfðu Kerry. Hann sagðist þurfa á stuðningi þeirra að halda og að hann myndi vinna fyrir honum.