Deilt um hvar útför Arafats skuli fara fram

Kertum hafði verið komið fyrir utan við hersjúkrahúsið í Clamart, …
Kertum hafði verið komið fyrir utan við hersjúkrahúsið í Clamart, utan við París, þar sem Arafat liggur þungt haldinn. AP

Bandarískir embættismenn sögðu í samtali við fréttastofu CNN í morgun að Yasser Arafat væri haldið lifandi með öndunarvélum á hersjúkrahúsi í París á meðan franskir, ísraelskir og egypskir embættismenn ráðfæra sig við fjölskyldu og nánustu samstarfsmenn hans um hvar útför hans eigi að fara fram. Fjölskyldan vill að Arafat verði jarðaður í Jerúsalem, en Ísraelsstjórn segir að það komi ekki til greina. Samkvæmt sið múslima á útför að fara fram innan sólarhrings frá andláti og þess vegna er ekki hægt að úrskurða Arafat látinn fyrr en ljóst er hvar útförin á að fara fram.

Öllum liðsmönnum palestínskra öryggissveita var í gærkvöldi skipað í viðbragðsstöðu en hætta var talin á ókyrrð á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna vegna frétta um að Yasser Arafat lægi banaleguna.

AFP-fréttastofan hafði eftir frönskum læknum að í læknisfræðilegum skilningi væri Arafat enn á lífi. Hann hefði hins vegar fallið í dá sem hann myndi ekki vakna úr og að honum væri í reynd haldið á lífi með öndunarvélum. Var Arafat sagður "heiladauður".

Vel er fylgst með veikindum Arafats í Ísrael og ítrekaði Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, í gær að ekki kæmi til greina að Arafat yrði jarðaður í Jerúsalem. "Þetta mun ekki gerast á meðan ég er við völd, og ég hef ekki í hyggju að láta af völdum," hafði ísraelska útvarpið eftir Sharon. Eru Ísraelar sagðir aðeins munu samþykkja að Arafat verði greftraður á Gaza-svæðinu, ekki komi til greina að hann verði lagður til hinstu hvílu á svæði sem Ísraelar ráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert