Átta af hverjum 10 konum á þrítugs- og fertugsaldri eru svo óánægðar með líkama sinn að flestum er tilhugsunin um að horfa á sig bera í spegli óbærileg. Er það niðurstaða nýrrar breskrar könnunar sem gerð var meðal lesenda tímaritsins Marie Claire.
Konurnar kveðast vera undir svo miklu áreiti til að grennast vegna auglýsinga þar sem við blasi sýningarstúlkur eða frægar konur. Mest er óánægja þeirra með mitti, læri, brjóst og bossa. Gera þær allt til þess að komast hjá því að þurfa sjá sig án fata í spegli.
Könnunin var gerð til að leiða fram hvort eitthvað væri hæft í því að óánægja kvenna með líkama sinn gerði að verkum að þær fældust umræður um mikilvæg heilsufarsmál eða fara í læknisskoðun þegar vísbendingar um sjúkdóma segðu til sín.