Börnum í japönskum skólum verður boðið hvalkjöt í matinn á ný eftir 20 ára hlé. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að hvalveiðimenning, sem á undir högg að sækja vegna atgangs umhverfisverndarmanna, líði ekki undir lok.
Boðið verður upp á hvalkjötið tvisvar í mánuði í barna- og menntaskólum í héraðinu Wakayama í suðvesturhluta landsins. Búist er við að flestir skólar héraðsins, en þeir eru 490 talsins og nemendur þeirra um 100.000, bjóði upp á „hvalborgara“ eða steiktar sojalegnar sneiðar.
Verður það í fyrsta sinn sem hvalkjöt verður í matinn í japönskum skólum frá því Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) bannaði hvalveiðar árið 1982.