Íranar hrósa sigri yfir stjórn Bush

Stjórnvöld í Íran hrósuðu í gær sigri yfir stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta eftir að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) ákvað að vísa ekki deilu um kjarnorkuáætlun Írana til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

"Við höfum sannað að við getum einangrað Bandaríkin á alþjóðlegum vettvangi. Og þetta er mikill sigur," sagði Hassan Rowhani, samningamaður Írana í viðræðum við IAEA. Hann skírskotaði til þess að stjórn Bandaríkjanna hafði beitt sér fyrir því að málinu yrði vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Rowhani bætti við að Íranar myndu aldrei afsala sér réttinum til að hagnýta kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi. Hann lagði áherslu á að sú ákvörðun Írana að hætta að auðga úran væri aðeins tímabundin og þeir áskildu sér rétt til að hefja auðgun úrans eftir að samningaviðræðum við Breta, Frakka og Þjóðverja lyki. "Þetta ætti að vera spurning um nokkra mánuði en ekki ár," sagði Rowhani. Viðræðurnar eiga að hefjast í desember og stefnt er að því að ná samkomulagi um viðskipti, samstarf í öryggismálum og tryggingar fyrir því að Íranar reyni ekki að framleiða kjarnavopn.

Stjórn Bandaríkjanna hefur sakað Írana um að hafa reynt að framleiða kjarnavopn á laun en Íranar segjast aðeins ætla að koma sér upp kjarnorkuverum til orkuframleiðslu. Bandaríkjastjórn hefur ekki útilokað að hún óski eftir því að öryggisráðið taki málið fyrir og ræði hugsanlegar refsiaðgerðir gegn Íran.

Teheran. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert