Leiðtogi CDU: Fjölmenningarsamfélagið gengur ekki upp

Merkel ávarpar flokksþing CDU í Dusseldorf í dag.
Merkel ávarpar flokksþing CDU í Dusseldorf í dag. AP

Innflytjendur verða að laga sig að kristilegum menningarheimi meirihluta Þjóðverja vegna þess að allar tilraunir til að búa til fjölmenningarsamfélag eru dæmdar til að mistakast, sagði Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata (CDU), stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Þýskalandi, á flokksþingi í Dusseldorf í dag.

„Við höfum ætíð vitað þetta. Hugmyndin um fjölmenningarlegt samfélag getur ekki orðið að veruleika,“ sagði Merkel. Hún sagði ennfremur að þýsk menning væri opin fyrir utanaðkomandi áhrifum, en í þýskri menningu væri „haldið upp á hátíðisdaga kristinna, ekki múslíma“.

Umræðan um aðlögun innflytjenda - einkum Tyrkja og araba - að þýsku samfélagi hefur vaknað snarlega á ný eftir að hollenski kvikmyndagerðarmaðurinn Theo van Gogh var myrtur í Amsterdam í síðasta mánuði, að því er talið er vegna þess að hann gagnrýndi Íslam. Hefur öfgasinnaður múslími, sem er bæði með hollenskan og marokkóskan ríkisborgararétt, verið handtekinn vegna morðsins.

Um sjö milljónir innflytjenda búa í Þýskalandi, og um helmingur þeirra er múslímar.

CDU, sem er flokkur Helmuts Kohls, fyrrverandi kanslara, tapaði naumlega í þingkosningunum 2002 fyrir Jafnaðarmannaflokki Gerhards Schröders. Næstu kosningar fara fram í Þýskalandi 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert