Nú er ljóst að yfir 7 þúsund manns létu lífið og þúsunda til viðbóta er saknað eftir að öflugasti jarðskjálfti, sem orðið hefur á jörðinni í fjóra áratugi, olli allt að 10 metra háum flóðbylgjum víða um Asíu. Jarðskjálftinn, sem mældist 8,9 stig á Richter, átt upptök á botni Indlandshafs undan Acehhéraði í Indónesíu og olli flóðbylgjum sem riðu yfir Sri Lanka, Indland, Taíland, Indónesía, Maldiveyjar, Myanmar og Malasíu. Einnig hafa borist fréttir af jarðskjálfta, sem mældist 7,3 stig og átti upptök við Andaman- og Nicobareyjar í Indlandshafi.
Yfir 3000 manns létu lífið í Sri Lanka og allt að 1 milljón manna er heimilislaus eftir flóðbylgjurnar. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í landinu. Á Indlandi létust um 2000 manns og í Indónesíu eru að minnsta kosti 1870 látnir en verst er ástandið í Acehhéraði í nágrenni við upptök skjálftans. Yfir 200 eru látnir á Taílandi og 1900 manns eru slasaðir og auk þess er margra saknað á vinsælum ferðamannastöðum í suðurhluta landsins. 42 létu lífið í Malaísíu og 11 á Maldiveyjum sem eru afar láglendar.
Upptök jarðskjálftans voru um 40 km undir sjávarbotni undan vesturströnd Súmötru og mældust eftirskjálftar allt að 7 stig á Richter. Stóri skjálftinn var sá fimmti öflugasti sem mælst hefur í heiminum frá árinu 1900 og sá fjórði öflugasti frá því 9,2 stiga jarðskjálfti varð í Alaska árið 1964.
Skjálftinn í morgun fannst víða í Suðaustur-Asíu, allt frá Singapúr til norðurhluta Taílands. Mestar urðu skemmdirnar af völdum skjálftans sjálfs á norðurhluta Súmötru en þar eyðilögðust margar byggingar. Manntjónið þar stafaði þó einkum af flóðbylgjum sem komu í kjölfarið.
Skjálftinn reið yfir réttu ári og einum degi eftir að mikill jarðskjálfti reið yfir írönsku borgina Bam en þar létu yfir 30 þúsund manns lífið.