Sá mynd af 2 ára frænda sínum á Netinu eftir flóðbylgju á Taílandi

Myndin sem birt var af litla drengnum á vefsíðu sjúkrahússins …
Myndin sem birt var af litla drengnum á vefsíðu sjúkrahússins í Phuket. AP

Frændi tveggja ára gamals sænsks drengs sem fannst einn á ráfi á hinni vinsælu ferðamannaeyju Phuket, eftir að flóðbylgja skall á suðurhluta Taílands á sunnudag, gaf sig fram eftir að hann sá mynd af drengnum á Netinu. Tugir foreldra sem leita í örvæntingu að börnum sínum eftir flóðbylgjuna héldu til sjúkrahússins í Phuket eftir að þeir fréttu að þar væri 2 ára drengur sem ekki væri vitað hvaðan væri.

Frændinn, sem sagðist heita Jim, sagði í dag, að hann hefði séð myndina af hinum unga frænda, Hannes Bergström, þegar hann flakkaði um á Netinu. „Þegar ég sá Hannes á Netinu, bókaði ég flugmiða innan fimm klukkustunda,“ sagði Jim, sem flýtti sér til alþjóðlega sjúkrahússins í Phuket frá Conburi í gærkvöldi.

Jim sagði að fimm skyldmenni hans frá Gautaborg hefðu verið í mánaðarlöngu fríi á Taílandi þegar flóðbylgjan skall á. Þar á meðal voru foreldrar Hannesar og amma hans. Fólkið eyddi síðustu dögum ferðarinnar í Khao Lak.

Starfsmenn sjúkrahússins og dagblað í Phuket birtu myndina af Hannesi á vefsíðu sjúkrahússins. Andlit hans var alsett moskítóbitum. Starfsfólkið sagði að hann hefði fundist á götu ekki fjarri bænum Khao Lak. Drengurinn bablaði einhver orð en starfsfólkið skildi ekki hvað hann sagði. Var þó talið hugsanlegt að hann væri sænskur eftir að hann virtist veita sænskum manni sem talaði við hann athygli.

Yfirmenn sjúkrahússins sögðu að þeir leituðu einnig tveggja Þjóðverja, Norbert og Edeltraud Michl, foreldra 10 ára gamallar stúlku, Sophiu Michl, sem er stödd á sjúkrahúsinu. Hún hlaut skurði og mar í andliti við hamfarirnar.

Óttast er að mörg börn séu munaðarlaus eftir hamfarirnar.

Sænskur drengur, Karl Nilsson, frá Luleå í Svíþjóð, missti foreldra …
Sænskur drengur, Karl Nilsson, frá Luleå í Svíþjóð, missti foreldra sína þegar flóðbylgjan skall á Phuket í Taílandi. AP
Carl Michael Bergman og sonur hans Hannes, frá Stokkhólmi, leita …
Carl Michael Bergman og sonur hans Hannes, frá Stokkhólmi, leita að týndri eiginkonu og móður, Ceciliu, en hún er í hópi þeirra sem saknað er eftir flóðin í suðurhluta Taílands. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert