Enn hefur ekkert spurst til 600 Svía í Taílandi

Slasaðir ferðamenn bíða í flugvellinum í Phuket á Taílandi.
Slasaðir ferðamenn bíða í flugvellinum í Phuket á Taílandi. AP

Ekki er vitað um afdrif um 3 þúsund Norðurlandabúa, sem voru á hamfarasvæðunum í Asíu á sunnudag. Sænska ferðaskrifstofan Fritidsresor hefur enn ekki náð sambandi við um 600 farþega, sem voru á vegum skrifstofunnar í Taílandi þegar flóðbylgja skall á suðurhluta landsins á sunnudagsmorgun. Ekki er vitað um afdrif alls um 1000 Svía á flóðasvæðunum. Norræna flugfélagið SAS ætlar að mynda loftbrú milli Taílands og Kaupmannahafnar til að sækja norræna ferðamenn sem eru í Taílandi.

Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svía, kom í morgun til Phuket í Taílandi og sagðist þá óttast, að margir þeirra sem saknað er muni aldrei finnast. Freivalds sagði að um væri að ræða þjóðaráfall fyrir Svía og því mætti jafna við það þegar ferjan Estonia sökk á Eystrasalti árið 1994.

Flugvélarnar, sem SAS ætlar að nota til að flytja fólk frá Taílandi, eru langdrægar vélar af gerðinni Airbus 330 og Airbus 340 sem taka um 260 farþega. Búist er við fyrstu vélarnar fari frá Taílandi í kvöld eða í fyrramálið.

Íslensk farþegaflugvél frá Loftleiðir Icelandic, dótturfélagi Flugleiða, fór í gærkvöldi frá Keflavík áleiðis til Phuket í Taílandi til að sækja um 200 sænska ferðamenn.

Fyrstu leiguflugvélarnar komu frá Taílandi til Kaupmannahafnar og Malmö í gærkvöldi. Sumir voru berfættir og vafðir í ábreiður þegar þeir komu út úr flugvélunum. Að sögn talsmanna Rauða krossins hafði verið safnað saman hlýjum fötum handa fólkinu, sem margt missti allan farangur sinn í flóðbylgjunni. Blaðamenn fengu ekki að ræða við fólkið sem flest var frá Danmörku og Svíþjóð. Nokkur börn sáust ganga ein út úr vélinni í Kaupmannahöfn en fyrr í gær komu mörg börn án foreldra sinna með flugvél sem lenti í Malmö í Svíþjóð.

Sænsk blöð segja að staðfest sé að 54 Svíar hafi látið lífið í hamförunum. Um 200 Dana, sem voru í Khao Lak og Phuket á Taílandi er saknað. Staðfest er að þrír Danir létu lífið og að minnsta kosti 11 hafi verið lagðir á sjúkrahús. Norska utanríkisráðuneytið segist ekki hafa náð sambandi við nokkur hundruð Norðmenn. Stjórnvöld í Finnlandi óttast að um 200 Finna sé saknað en ferðaskrifstofur segjast ekki hafa náð sambandi við um 300 Finna á hamfarasvæðunum. Staðfest er að 2 Finnar létu lífið.

Sænsku læknarnir Lena Brundin-Larsson og Patrik Brundin, sem voru í leyfi í Taílandi, sendu tölvupóst til sænska blaðsins Dagens Nyheter í gær og hvöttu norrænar ríkisstjórnir til að gera ráðstafanir til að sækja slasaða Norðurlandabúa til Taílands. Sögðu þau að hundruð Norðurlandabúa hefðu slasast alvarlega, þar á meðal hlotið beinbrot og innvortis áverka, og skortur á loftkælingu og slæm aðstaða á sjúkrahúsum ylli mikilli sýkingarhættu.

Norski herinn sendi Boeing 737 sjúkraflugvél til Taílands. Finnar sendu einnig færanlegt sjúkraskýli og 15 lækna og hjúkrunarfræðinga til landsins. Þá hafa Danir, Svíar, Norðmenn og Finnar sent réttarmeinafræðinga til Taílands til að aðstoða við að bera kennsl á lík.

Norski Rauði krossinn sendir einnig í dag færanlegt sjúkraskýli til Sri Lanka og vistir fyrir um 100 þúsund sjúklinga í þrjá mánuði. Einnig verða send tjöld og drykkjarvatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert