Flaumurinn hreif með sér lest á Sri Lanka

Syrgjendur á Sri Lanka jarðsettu í gær fórnarlömb flóðbylgjunnar miklu á sunnudag en talið er að nær 20.000 manns hafi látið lífið þar í landi.

Álíka margt fólk er talið hafa farist í Aceh-héraði í norðanverðri Indónesíu og þar réðst hungrað fólk inn í verslanir. "Fólk stelur en ekki af mannvonsku heldur af því að það sveltur," sagði Irman Rachmat, starfsmaður Rauða krossins. "Okkur vantar fólk til að grafa hina látnu. Við höfum áhyggjur af því að líkin á götunum muni valda sjúkdómum." Víða er skortur á hreinu vatni en hjálparstofnanir eru byrjaðar að dreifa hjálpargögnum þar sem þörfin er talin mest.

Enn er óljóst hve margt fólk lét lífið í náttúruhamförunum en síðdegis í gær var nefnd talan 55 þúsund, enn er lítið vitað um örlög mörg þúsund manna á afskekktum stöðum. Vitað er að milljónir manna hafa misst heimili sín. Hvarvetna liggja lík sem víða eru farin að rotna í hitanum, heilu þorpin hafa horfið og sjúkrahús og líkhús eru yfirfull. Fundist hafa um 10.000 lík í einni borg í Indónesíu, Meulaboh.

Flestir fórust í Sri Lanka, Indónesíu og Indlandi en einnig varð mikið manntjón í Taílandi. Á austurströnd Afríku var skýrt frá manntjóni af völdum hamfaranna í Sómalíu, Tansaníu og í Kenýa. Afríkulöndin eru um 4.500 kílómetra frá upptökum jarðskjálftans við Indónesíu sem olli flóðbylgjunni. Til samanburðar er fjarlægðin yfir hafið milli Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna um 5.000 km.

Staðfest hefur verið að tugir vestrænna ferðamanna eru meðal hinna látnu en óttast að þeir séu mun fleiri, ef til vill mörg hundruð. Langflest fórnarlambanna eru samt íbúar í löndunum sjálfum og oft úr röðum blásnauðra fiskimanna sem nota veikbyggða báta. Talið er að um þriðja hvert fórnarlamb á Sri Lanka hafi verið barn. Erfiðara var fyrir börnin en fullorðna að bjarga sér í flaumnum með því að grípa í trjágreinar eða báta.

Margir fundu ekki ástvini sína. "Hvar eru börnin mín?" spurði Absah, 41 árs gömul kona í Banda Aceh í Indónesíu en hún leitaði í gær að 11 börnum sínum. "Hvar eru þau? Hvers vegna kom þetta fyrir mig? Ég hef misst allt."

Líkum skolar á land

Einna mest virðist manntjónið hafa verið í Indónesíu en upptök jarðskjálftans á hafsbotni voru um 200 km undan Súmötru sem heyrir til Indónesíu. Urðu héruðin Aceh og Norður-Súmatra verst úti, bylgjurnar sem gengu á land voru allt að 10 metra háar og fjöldi bæja og þorpa hvarf.

Erlendum fréttamönnum hefur ekki verið leyft að fara til Aceh síðustu árin vegna átaka stjórnarhersins þar við innlenda uppreisnarmenn. Að sögn heimildarmanna í gær náði flóðið sums staðar um 15 km inn í landið og mun hafa drekkt sjúklingum á sjúkrahúsi í einni borginni. Margir þeirra sem komust af hafa ekkert húsaskjól. Varaforseti Indónesíu, Jusuf Kalla, sagði í gær að talið væri að á Súmötru einni hefðu um 27.000 manns farist og um milljón manns misst heimili sín.

Manntjónið á Sri Lanka var í gær áætlað allt að 20.000. Að sögn eins ráðherra landsins, Susil Premajayantha, eru hús 1,5 milljóna manna annaðhvort ónýt eða skemmd og fáir íbúanna munu komast af án hjálpar. Haft var eftir Premajayantha í The New York Times að vatnsflaumurinn hefði hrifið með sér um 1.400 km af járnbrautarsporum sem lágu frá höfuðborginni Colombo til suðurhéraðanna.

Flóðið ýtti lest sem bar heitið Samudradevi, eða Drottning hafsins, af sporinu og margir farþeganna dóu eða þeirra er saknað. Þyrla hersins á Sri Lanka sótti í gær Helmut Kohl, fyrrverandi kanslara Þýskalands, sem var í leyfi í Galle í sunnanverðu landinu en þar olli flóðbylgjan miklu tjóni. Stjórnvöld hafa notfært sér að margir útlendu ferðamannanna eru með farsíma og hafa sent þeim smáskilaboð og þannig getað staðsett fólk sem orðið hefur að flýja inn í landið.

Líkum hélt áfram að skola á land á um 2000 metra langri strandlengju á austanverðu Indlandi en þar í landi er talið að minnst 8.500 hafi farist. Þar varð tjónið mest í héruðunum Tamil Nadu, Andra Pradesh og Kerala og varð borgin Madras illa úti. Einnig varð mikið tjón í borginni Pondicherry. Líkin eru brennd við fyrsta tækifæri til að reyna að minnka hættuna á farsóttum og í einu tilfelli voru lík um 100 fórnarlamba brennd saman, meðal þeirra voru mörg börn.

Upptök jarðhræringanna voru nálægt eyjaklösunum Andaman og Nicobar. Vitað er að þar fórust þúsundir manna en endanleg tala er óljós vegna þess hve illa gengur að fá traustar upplýsingar. Ekki er vitað hve margir sjómenn voru á hafinu þegar hamfarirnar riðu yfir.

Talið er að allt að 2.000 manns hafi látið lífið í Taílandi, margir þeirra erlendir ferðamenn. Mikið eignatjón varð auk þess á ferðamannastöðum eins og Phuket og Phi Phi. Víða hreif flóðbylgjan með sér fólk sem var í sólbaði á ströndinni eða við köfun rétt undan henni, að sögn fréttavefjar BBC. Breskur ferðalangur, Kevin Aldrich, vaknaði með andfælum. "Ég vaknaði og hélt að einhver hefði bankað á dyrnar - þær opnuðust með hvelli og vatnsflóðið reif okkur út úr rúminu. Vatnið braut rúðurnar bakatil og við flutum út um gluggann. Við skriðum upp á veggi og þök en vatnið hækkaði enn og við vorum ekki komin nógu hátt. Húsin umhverfis mig hrundu og ég skall niður í flauminn. Þegar ég kom aftur upp greip ég dauðahaldi í trjágrein," sagði Aldrich.

Banda Aceh, Colombo, Jakarta. AP, AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert