Að minnsta kosti 44 Svíar eru látnir á Taílandi

Búið er að bera kennsl á lík 44 Svía, sem fórust í náttúruhamförunum á Taílandi á sunnudagsmorgun. Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, skýrði frá þessu í dag og sagði að þessi tala muni að öllum líkindum hækka töluvert.

„Það er öllum ljóst, að endanleg tala verður nokkur hundruð. Í versta tilfelli gæti hún farið yfir 1000," sagði Persson á blaðamannafundi í dag.

Sænsk stjórnvöld hafa sagt að ekki sé vitað um afdrif 1000-1500 Svía, sem voru á hamfarasvæðunum í Asíu. Sænskir fjölmiðlar hafa hins vegar sagt að allt að ekki sé vitað um afdrif allt að 4500 sænskra ferðamanna.

Þá er staðfest að 464 Norðmanna, 219 Dana og 200 Finna er enn saknað eftir náttúruhamfarirnar. Stjórnvöld í þessum löndum, sem og stjórnvöld í Svíþjóð, hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast of hægt við hamförunum og gera ráðstafanir til að koma fólkinu til aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert