Allt að 5 milljónir manna við Indlandshaf heimilislausar

Móðir með tvö börn í búðum, sem komið hefur verið …
Móðir með tvö börn í búðum, sem komið hefur verið upp á Andamaneyjum í Bengalflóa. AP

Tala látinna, eftir náttúruhamfarirnar við Indlandshaf, er nú komin í 88 þúsund manns og segja sérfræðingar ljóst að talan verði til muna hærri áður en yfir lýkur. Þá eru allt að 5 milljónir manna heimilislausar á svæðinu. Verst er ástandið í Indónesíu en þarlendir embættismenn segja nú að 52 þúsund manns að minnsta kosti hafi farist þar í landi, flestir í Aceh héraði á vesturhluta Súmötru þar sem flóðbylgjan hreif með sér heilu þorpin. Þá séu á milli 1 og 3 milljónir manna heimilislausar.

Í Sri Lanka er ljóst að 22.800 manns að minnsta kosti létu lífi, þar af um 100 útlendingar og rúmlega 4000 manns er enn saknað. Um ein milljón manna missti heimili sín í flóðbylgjunni. Á Indlandi fórust að minnsta kosti 10.850 manns en margra þúsunda er saknað. Nærri 2000 manns létu lífið á suðurhluta Taílands og nærri 5800 manns er saknað og að sögn Thaksins Shinawatras, forsætisráðherra, eru þeir flestir taldir af.

Í Myanmar létust að minnsta kosti 90 manns en búist er við að sú tala hækki til muna. Að minnsta kosti 75 létu lífið og 42 er saknað á Maldíveyjum. 66 létust í Malasíu, tveir í Bangladesh, 132 í Sómalíu á austurströnd Afríku, 10 í Tansaníu og 1 í Kenýa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert