Björgunarmenn á hamfarasvæðum í Asíu í kappi við tímann

Víða á hamfarasvæðunum hafa verið festar upp tilkynningar um fólk …
Víða á hamfarasvæðunum hafa verið festar upp tilkynningar um fólk sem saknað er. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Flugmenn herþyrlna hafa í dag reynt að koma matarsendingum til þorpa sem urðu illa úti af völdum jarðskjálfta og flóða á eyjunni Súmötru í Indónesíu um síðustu helgi. Mikill matarskortur er í þorpunum og óttast er að sjúkdómar kunni að breiðast þar út. Lík eru á víð og dreif á svæðinu. Ríkisstjórn landsins segir að um 45.300 manns hafi farist í Indónesíu í hamförunum. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segist þó telja að allt að 80.000 manns kunni að hafa farist og um ein milljón barna þurfi á aðstoð að halda.

UNICEF segist telja að um 60% af höfuðstað Aceh hafi eyðilagst í veðurofsanum og að auki sé eyðileggingin mikil á norðvesturströndinni, sem nær yfir um 250 kílómetra svæði. Stofnanir hins opinberar eru óstarfhæfar og birgðir á neysluvörum á boð við eldsneyti eru á þrotum. Jafnvel sjúkrabifreiðum er skammtað eldsneyti og raðir við bensínstöðvar eru um eins kílómeters langar.

Öll dauðsföll af völdum hamfaranna í Indónesíu urðu á Súmötru.

Allt að 7.000 kunna að hafa farist í Taílandi

Í Taílandi fara nú fram stærstu björgunaraðgerðir sem framkvæmdar hafa verið þar í landi. Alþjóðlegar hjálparsveitir og þúsundir Taílendinga taka þátt í þeim. Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra landsins, segist óttast að allt að 7.000 manns kunni að hafa farist af völdum flóðbylgjunnar þar. „Margra er saknað og við teljum að um 80% þessa fólks sé látið. 20% hefur hugsanlega ekki tekist að gera vart við sig,“ sagði hann við blaðamenn.

Embættismenn segja að meira en 6.000 Taílendinga og útlendinga sé saknað en staðfest er að 1.975 létu lífið af völdum hamfaranna.

Á sama tíma og Thaksin hélt blaðamannafund flýttu björgunarmenn og réttarlæknar frá Ástralíu, Japan, Þýskalandi, Ísrael og örðum löndum á hamfarasvæðin. Þeir keppa nú við tímann í að reyna að finna fólk sem kann að hafa lifað af og bera kennsl á lík hinna látnu sem rotna hratt. „Við verðum að vona að við finnum einhvern,“ sagði Ulf Langemeier, stjórnandi hóps 15 þýskra sérfræðinga í björgun eftir jarðskjálfta sem komnir voru á staðinn með þrjá leitarhunda sér til fulltingis. Langemeier varaði við bjartsýni og sagði alltaf mögulegt að finna fólk á lífi í rústum þegar jarðskjálfti yrði á landi en „þegar vatn er komið inn í bygginguna er enginn möguleiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert