Fagnaðarfundir í Phuket

Hannes Bergström á sjúkrahúsinu.
Hannes Bergström á sjúkrahúsinu. AP

Miklir fagnaðarfundir urðu þegar finnski drengurinn Hannes Bergström, sem fannst einn og yfirgefinn á götu í Phuket eftir hamfarirnar í Asíu á sunnudag, hitti föður sinn að nýju í gær á sjúkrahúsi á eyjunni. Hannes, sem er tæplega tveggja ára gamall, virtist raunar undrandi á hamaganginum en faðir hans, Marko Kärkkäinen, gat hins vegar ekki haldið aftur af gleðitárunum.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær náði frændi Hannesar í hann á sjúkrahús í Phuket eftir að hafa séð frásögn af drengnum og mynd af honum á vefsíðu blaðsins Phuket Gazette. Var Hannes síðan fluttur á sjúkrahús til föður síns, annars staðar á Phuket-eyju, í gær. Herma fréttir að taílensk prinsessa hafi greitt þann kostnað sem féll til er þyrla flaug með Hannes á fund föður síns.

Kärkkäinen sagðist hafa heyrt af því að taílensk prinsessa hefði bjargað syni hans. "Ég hef komið til Taílands sjö sinnum og þessi heimsókn hefur einfaldlega staðfest það sem ég vissi fyrir um íbúa Taílands; hversu gjafmildir þeir eru og hjartagóðir," sagði hann hrærður. Það varpaði þó miklum skugga á endurfundi feðganna í gær að móðir Hannesar, Suzanne Bergström, er í hópi þeirra sem saknað er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert