Kohl segir afleiðingar flóðbylgjunnar minna á loftárás

Strandlengjan við Galle eftir að flóðbylgjan fór þar yfir.
Strandlengjan við Galle eftir að flóðbylgjan fór þar yfir. AP

Helmut Kohl, fyrrum kanslari Þýskalands, var staddur í bænum Galle á Sri Lanka þegar flóðbylgjan mikla skall á strönd landsins á sunnudagsmorgun. Í viðtali við þýska blaðið Bild í dag segist hann hafa fylgst með hamförunum af hótelsvölum og segir að þær hafi minnt sig á afleiðingar loftárásanna á Þýskaland, sem honum eru í barnsminni.

„Klukkan 9 á sunnudagsmorgun stóð ég á hótelsvölunum og fylgdist með því hvernig sjórinn breyttist. Hann virtist hafa tekið stakkaskiptum," segir Kohl, sem er 74 ára, í blaðaviðtalinu,

„Síðan reis gífurleg alda og hún virtist stöðugt eflast. Fólk forðaði sér í allar áttir og hrópaði af skelfingu og aldan muldi allt undir sig. Tréskúrum og byggingum, sem ekki voru sterklega byggðar, skolaði hreinlega burt," sagði Kohl.

Hann var í heimsókn í Galle ásamt vinum sínum. Hann sagði að hótelherbergi sitt hefði verið á 3 hæð en sjórinn fyllti 1. og 2. hæð hótelsins.

„Við gerðum okkur fyrst grein fyrir hamförunum þegar við sáum að fyrstu tvær hæðir hótelsins voru á kafi í vatni," sagði Kohl við Bild. „Sjórinn hreif allt með sér. Ég sá fyrir hugskotsjónum mínum myndir af því sem ég upplifði sem lítill drengur. Þetta var eins og eftir umfangsmikla loftárás."

Kohl var fluttur frá Galle til höfuðborgarinnar Colombo á þriðjudag. Hann segist í viðtalinu ætla að vera áfram í Sri Lanka og reyna að leggja hjálparstarfinu þar lið. „Ég vil gjarnan koma að verkefnum, einkum til hjálpar börnum," segir hann.

Að minnsta kosti 23 þúsund manns létu lífið á Sri Lanka þegar flóðbylgjan fór þar yfir.

Helmut Kohl var kanslari frá 1982 til 1998.
Helmut Kohl var kanslari frá 1982 til 1998. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert