Mikið starf eftir við greftrun látinna á hamfarasvæðum í Indónesíu

Indónesísk börn sem lifðu af hamfarirnar flutt frá Banda Aceh …
Indónesísk börn sem lifðu af hamfarirnar flutt frá Banda Aceh til Medan, höfuðborgar Norður-Súmötru í dag. AP

Indónesar þurfa á allri þeirri aðstoð sem möguleg er að halda til þess að grafa fórnarlömb jarðskjálfta og flóðbylgna á eyjunni Súmötru, svo koma megi í veg fyrir farsóttir, að því er ráðherra velferðarmála í ríkisstjórninni sagði í dag.

Ráðherrann Alwi Shihab sagði að fólk í héraðinu Aceh, þar sem íslömsk trú er ráðandi, ætti ekki að grafa hina látnu að sið múslima heldur búa til grafir fyrir þá þar sem þeir fyndust. „Eitt af því sem fólk hefur áhyggjur af er að enn er ekki búið að grafa mörg lík,“ sagði Shihab við blaðamenn.

Talið er að allt að 100.000 manns hafi farist af völdum hamfaranna í Indónesíu sem varð verst úti af völdum þeirra.

Enn er að finna lík í röðum á götum borgarinnar Banda Aceh og á svæðum í nágrenni hennar. Rotnunarlykt er í lofti og sérfræðingar vara við því að fólk sem er í slæmu ástandi eftir hamfarirnar eigi á hættu að smitast af sjúkómum.

Fjölmargir hermenn vinna að því að safna hinum látnu saman og nota vinnuvélar til þess að búa til fjöldagrafir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert