Minna um hátíðahöld um áramótin á Ítalíu vegna flóða í Asíu

Starfsmaður Rauða krossins á Leonardo da Vinci flugvellinum í Róm …
Starfsmaður Rauða krossins á Leonardo da Vinci flugvellinum í Róm fylgist með ferðalöngum frá Phuket-eyju í Taílandi í dag. AP

Á Ítalíu er nú beðið frétta af um 700 ítölskum ríkisborgurum sem saknað er eftir hamfarirnar í Asíu um síðustu helgi. Í sumum borgum verður minna um hátíðahöld en venjulega af virðingu við fórnarlömb hamfaranna. Staðfest hefur verið að 14 Ítalir hafi týnt lífi eftir jarðskjálfta og flóðbylgjur sem fylgdu í Suður-Asíu á sunnudag. Gianfranco Fini, utanríkisráðherra varaði við því að gær að mörg hundruð til viðbótar væri saknað og talan ætti áreiðanlega eftir að hækka.

Ítalska utanríkisráðuneytið sendi út þúsundir sms-skeyta í gær til Ítala sem voru á flóðasvæðinu þegar hamfarirnar áttu sér stað. Voru viðtakendur skeytanna hvattir til þess að greina frá nafni sínu, tilgreina hvar þeir væru staddir og í hvaða ástandi þeir væru.

Skilaboðin voru einnig send til innflytjenda á Ítalíu, sem eiga rætur að rekja til hamfarasvæðsisins, en höfðu farið á heimaslóðir yfir jólin og áttu ítölsk símanúmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert