Powell á hamfarasvæðin

Beðið fyrir fórnarlömbum hamfaranna í Jakarta í Indónesíu í dag.
Beðið fyrir fórnarlömbum hamfaranna í Jakarta í Indónesíu í dag. AP

Ríkisstjórn George W. Bush, Bandaríkjaforseta, hefur ákveðið að auka viðbrögð sín við hamförunum í Suður-Asíu og Afríku. Hefur Bandaríkjastjórn í hyggju að senda Colin Powell, utanríkisráðherra, á hamfarasvæðin, til þess að meta hvað Bandaríkin geti gert frekar til hjálpar.

„Öllum Bandaríkjamönnum er brugðið og þeir sorgmæddir yfir hinum fjölmörgu dauðsföllum og eyðileggingunni við Indlandshaf,“ sagði George W. Bush, Bandaríkjaforseti í yfirlýsingu sem Trent Duffy, aðstoðarfréttafulltrúi Hvíta hússins las í gær. Yfirlýsingin var gerð á búgarði Bush í Crawford í Texas en þar er hann í fríi.

Evrópskar ríkisstjórnir hafa rætt um að halda alþjóðlega ráðstefnu gefenda neyðaraðstoðar 7. janúar. Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau hafi hug á að taka þátt í slíkri ráðstefnu, en hafa ekki rætt málið frekar opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert