Þjóðarsorg á Sri Lanka

Stúlka sem er heimilislaus eftir hamfarirnar á Sril Lanka fær …
Stúlka sem er heimilislaus eftir hamfarirnar á Sril Lanka fær mataraðstoð í bænum Galle í landinu í gær. AP

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á á Sri Lanka í dag en þar fórust um 30.000 manns af völdum jarðskjálfta og flóðbylgna í landinu á annan í jólum. Hjálparstarf í landinu hefur reynst erfitt vegna mikilla rigninga. Flaggað var í hálfa stöng við allar stjórnarbyggingar á Sri Lanka í dag, en fyrir utan heimili og á bílum blöktu hvítir fánar, tákn sorgar í Suður-Asíu.

„Við höfum boðið öllum stjórnmálaflokkum að sækja trúarathöfn mismunandi trúarbragða á þessum degi þjóðarsorgar,“ sagði Chandrika Kumaratunga, forseti landsins. „Þingflokkarnir samþykktu að gera þrátt fyrir ágreining á milli þeirra,“ bætti hún við.

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbetbúa, sem er í útlegð, hefur sent Sri Lanka samúðarkveðjur. „Við biðjum fyrir þeim sem fórust og sendum öllum fjölskyldum sem eiga um sárt að binda samúðarkveðjur okkar,“ sagði hann í skilaboðum sem bárust Kumaratunga.

Úrhellisrigning var í austurhluta landsins í nótt en þar börðust hjálparstarfsmenn við að finna lík sem grafist höfðu í rústum bygginga í Batticaloa og Ampara umdæmum.

Staðfest er að 28.400 manns fórust í hamförunum á Sri Lanka. Um 5.000 manna er enn saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert