3,7 milljarðar hafa safnast í Svíþjóð handa fórnarlömbum hamfara

Flaggað í hálfa stöng á þaki sænska þingsins í Stokkhólmi …
Flaggað í hálfa stöng á þaki sænska þingsins í Stokkhólmi í gær. AP

Svíar hafa sett met í fjársöfnun meðal einstaklinga og fyrirtækja vegna jarðskjálfta og flóða í Suður-Asíu á annan dag jóla. Alls hafa safnast um 400 milljónir sænskra króna að því er hjálparsamtök í landinu tilkynntu í dag. Upphæðin samsvarar um 3,7 milljörðum íslenskra króna.

Svíþjóð er í hópi þeirra vestrænu ríkja sem urðu fyrir hvað mestu manntjóni í skjálftunum. Um 3.500 sænskra ferðamanna er enn saknað eftir flóðin og staðfest er að 59 létust. Sænskir embættismenn segja að sú tala eigi áreiðanlega eftir að hækka.

Í símasöfnunum á fimm ríkis- og einkareknum sjónvarpsstöðvum í gær söfnuðust um 340 milljónir sænskra króna. Áður höfðu meira en 50 milljónir safnast. „Við höfum ekki áður séð slíkar tölur. Svo margir reyndu að hringja í söfnunarmiðstöðvar að erfitt var að ná sambandi við þær,“ sagði sænski Rauði krossinn í yfirlýsingu í dag.

Karl Gústaf Svíakonungur, Silvía drottning, og þrjú börn þeirra, auk Göran Persson, forsætisráðherra, tóku þátt í sjónvarpssöfnuninni í gær, en þá hafði einnig verið lýst yfir þjóðarsorg í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert