Bandarískar herþyrlur flytja fólk frá flóðasvæðum á vesturströnd Indónesíu

Bandarískir hermenn með hjálpargögn á eyjunni Súmötru í Indónesíu í …
Bandarískir hermenn með hjálpargögn á eyjunni Súmötru í Indónesíu í dag. AP

Bandarískar herþyrlur hófu í dag að flytja fólk sem lifði af hamfarirnar í Aceh héraði á vesturströnd Indónesíu á brott af svæðinu í aðgerðum sem Sameinuðu þjóðirnar segja að muni „bjarga mannslífum.“ Larry Burt höfuðsmaður í Bandaríkjaher sem stýrir aðgerðunum sagði að þyrlurnar flyttu hjálpargögn til svæða sem að öðrum kosti hefði ekki verið hægt að ná til. Þá flyttu þær fólk sem orðið hefði strandaglópar eftir hamfarirnar til Banda Aceh, höfuðborgar héraðsins. „Við erum að byrja á því núna, við verðum að koma fólkinu á brott af svæðinu,“ sagði Burt í samtali við AFP-fréttastofuna.

Bandaríski sjóherinn hóf í gær að varpa matarpökkun á afskekkt strandsvæði á hamfarasvæðum í Indónesíu, en 17 þyrlur sjóhersins unnu að því.

Burt sagði að helsta vandamálið við að varpa matarsendingum úr lofti væri að hvergi væri að finna stóra hópa fólks sem gætu tekið við sendingunum. Hann sagðist hafa séð einangraða hópa fólks, sem í væru fjórir eða fleiri, á svæðinu við ströndina milli Banda Aceh og bæjarins Meulaboh, sem eyðilagðist að mestu í hamförunum. „Fólk skorti greinilega vökva og var næstum soltið í hel því þetta hefur nú staðið í viku og fólkið hefur ekkert fengið,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert