Fannst á lífi viku eftir hamfarirnar

Björgunarmenn hlynna að Tengku Sofyan eftir að hann fannst í …
Björgunarmenn hlynna að Tengku Sofyan eftir að hann fannst í dag. AP

Fiskimaður fannst í dag í Indónesíu fastur undir báti sínum en þar hafði hann legið frá því náttúruhamfarirnar urðu síðastliðinn sunnudag. Maðurinn hafði orðið fyrir miklu vökvatapi og var einnig talsvert skorinn. Segja læknar að maðurinn sé illa farinn, þó einkum andlega.

Maðurinn, sem heitir Tengku Sofyan og er 24 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús í Banda Aceh, héraðshöfuðborg Aceh-héraðs á Súmötri.

Svo virðist sem Sofyan hafi verið á sjó þegar flóðbylgjan skall á strönd Súmötru 26. desember. Bátur hans kastaðist upp á ströndina og Sofyan lenti undir honum.

Fyrr í dag lýstu indónesískir björgunarmenn því yfir, að nánast engar líkur væru á að nokkur fyndist á lífi á svæðunum. Sá síðasti, sem fannst á lífi á undan Sofyan var karlmaður, sem grafist hafði undir rústum húss síns í Banda Aceh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert