Greint frá andláti fólks í hamförum í Asíu í upplognum tölvuskeytum

Bresk lögregla reynir nú að finna sendendur upploginna tölvuskeyta sem send voru fólki sem hafði óskað eftir upplýsingum um vini og ættingja í Suður-Asíu á vefsíðu Sky-sjónvarpsstöðvarinnar eftir að flóðbylgjur gengu þar yfir á annan dag jóla. Í tölvuskeytum sem sögð voru frá stjórnvöldum var því haldið fram að vinir og ættingjar fólksins hefðu farist af völdum hamfaranna.

Talsmaður Lundúnalögreglunnar sagði seint í gærkvöldi að yfirvöld teldu að um alvarlegan glæp væri að ræða. Skeytin voru send frá sama netfangi og var því haldið fram að þau væru send frá skrifstofu breska utanríkisráðuneytisins í Taílandi.

Breska lögreglan benti á að stjórnvöld myndu aldrei tilkynna um dauðsföll með því að senda tölvuskeyti.

Í yfirlýsingu Sky News sjónvarpsstöðvarinnar sagði að stöðin hefði gert lögreglu viðvart um leið og upp komst að upplogin tölvuskeyti hefðu verið send fólki sem birt hafði skilaboð á vefsíðu stöðvarinnar. „Sky þykir andstyggilegt að fólk skuli misnota skilaboðasíðuna, sem ætluð er vinum og ættmennum fólks sem gæti hafa orðið flóðbylgjum að bráð,“ sagði í yfirlýsingu stöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert