Ættingjum og vinum útlendinga sem saknað er á hamfarasvæðum í Taílandi vísað á brott

Staflar af líkkistum í Phang Nga héraði í suðurhluta Taílands …
Staflar af líkkistum í Phang Nga héraði í suðurhluta Taílands í dag. AP

Lögregla í Taílandi vísaði í dag fjölskyldum og vinum útlendinga sem saknað er eftir flóðbylgjur sem þar skullu á annan dag jóla, á brott frá hamfarasvæðunum. Var fólkinu meðal annars gert að yfirgefa búddahof þar sem lík eru geymd en þangað halda margir í von um að finna lík ástvina sinna. Lögregla segir þessa ráðstöfun nauðsynlega svo réttarmeinafræðingar, sem vinna að því að taka DNA-sýni úr líkum geti haldið áfram að sinna sínum störfum.

„Vinir og ættingjar verða að halda sig frá hamfarasvæðunum, hofum, moskum og öllum þeim stöðum sem aðgerðir fara fram á, þar á meðal stöðum þar sem DNA-sýnum er safnað og lík eru krufin,“ sagði Tuaytup Dwibyunsin, yfirmaður í taílensku lögreglunni í yfirlýsingu sem skýrt er frá í frétt Reuters.

„Við metum aðstoð ykkar mikils, en við þurfum að fara að taka skipulega á málum. Við viljum ekki að þið hættið lífi ykkar,“ bætti hann við.

Undanfarna átta daga hafa mörg hundruð útlendingar farið á milli líkhúsa sem komið hefur verið upp til bráðabirgða, í leit að ættingjum og vinum sem saknað er eftir hamfarirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert