Færri Norðmenn fórnarlömb flóða í Asíu en talið var

Stúlkur frá Hut flóa á Indlandi sem varð illa úti …
Stúlkur frá Hut flóa á Indlandi sem varð illa úti í flóðunum, líta út um glugga í neyðarbúðum sem þær dveljast nú í. AP

Norsk stjórnvöld endurskoðuðu í dag tölur sem birtar höfðu verið yfir Norðmenn sem sakna hafði verið eftir flóðbylgjur í Asíu á annan dag jóla. Embættismenn og lögreglu hefur greint á um hvaða aðferðir séu heppilegastar til þess að reyna að finna fórnarlömb og þá sem kunna að hafa lifað hamfarirnar af. Samkvæmt tölum norsku lögreglunnar eru 16 Norðmenn látnir og 275 saknað eftir flóðbylgjurnar.

Áður hafði norska utanríkisráðuneytið greint frá því að 21 Norðmaður væri látinn, 462 manna væri saknað auk þess sem 980 Norðmenn hafi hugsanlega verið á ferðalagi á þeim slóðum sem urðu fyrir flóðbylgjunum.

Odd Einar Dörum, dómsmálaráðherra Noregs, sagði að tölurnar væru mismunandi því lögregla og utanríkisþjónustan beittu ólíkum vinnuaðferðum. „Það er okkur gleði og léttir að vita að fórnarlömbin eru mun færri en við óttuðumst,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Áður hafði Arne Johannesen, yfirlögregluþjónn, sagt að starfsfólk ráðuneytisins hefði ekki staðið sig sem skyldi í leit að fórnarlömbum. „Dýrmætur tími og upplýsingar hafa sennilega glatast því óhæft starfsfólk í utanríkisráðuneytinu hefur verið að sinna störfum lögreglu,“ sagði hann í viðtali við norska ríkisútvarpið, NRK.

Listi var birtur yfir þá sem saknað er í fyrsta sinn í dag. Meðal þeirra 275 sem er saknað eru 52 börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert