Glæpagengi stóðu fyrir fölskum viðvörunum í Austur-Tímor

Mari Alkatari, forsætisráðherra Austur-Tímor ræðir við fréttamenn.
Mari Alkatari, forsætisráðherra Austur-Tímor ræðir við fréttamenn.

Falskar viðvaranir um að nýjar flóðbylgjur myndu skella á ströndum Austur-Tímor voru runnar undan rifjum glæpamanna sem ætluðu sér að ræna hús þeirra íbúa sem flúðu heimili sín vegna viðvarananna. Þetta sagði Mari Alkatari, forsætisráðherra landsins, í dag.

Fjöldi fólks flúði heimili sín síðdegis á sunnudaginn eftir að orðrómur um nýjar flóðbylgjur dreifðist á meðal manna. Var sagt að vatnsyfirborð hefði hækkað óeðlilega mikið og að af því mætti ráða að nýjar flóðbylgjur skyllu á ströndum landsins.

Alkatiri flutti ávarp í útvarpi í dag þar sem hann bað fólk um að sýna stillingu og hvatti þá sem flúðu til fjalla til að snúa aftur til síns heima.

Hann sagði að lögregla væri að rannsaka þátt glæpagengjanna í málinu en þau hugðust græða á ótta fólksins með því að ræna heimili þeirra á meðan það var í burtu.

Mikið af starfsemi höfuðborgar landsins, Dili, lamaðist vegna þess að fólk flúði borgina, m.a. voru dagblöð ekki gefin út því blaðamenn og aðrir starfsmenn voru farnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert