Heimilishundurinn bjargaði elsta syninum frá flóðbylgjunni

Sangeeta, hundurinn Selvakumar og strákanir þrír.
Sangeeta, hundurinn Selvakumar og strákanir þrír.

Hin indverska Sangeeta var hundinum sínum heldur en ekki þakklát eftir að hann bjargaði syni hennar frá flóðbylgjunni á annan í jólum. Sangeeta á þrjá syni og gat einungis bjargað tveimur þeirra þegar hún tók til fótanna frá ströndinni. Valdi hún að grípa tvo yngri syni sína, þar sem hún bjóst við að sá elsti sem er þó aðeins sjö ára gamall ætti mesta möguleika af þeim að hlaupa sjálfur undan flóðbylgjunni.

Hann fylgdi henni þó ekki eftir og flýði á það sem honum virtist öruggasti staðurinn, lítinn kofa á ströndinni einungis 40 metra frá sjónum. Sangeeta hélt að hún myndi aldrei sjá hann aftur. Hundurinn þeirra, Selvakumar, sá til þess að það gerði hún víst. Hann steypti sér á bólakaf í vatnið og náði í drenginn inn í kofann. Þvínæst togaði hann með öllum sínum kröftum í hann og náði að koma honum af ströndinni og upp á hæð í nágrenninu.

Sangeeta hélt hins vegar að hún hefði misst elsta strákinn sinn. „Fólk sagði mér að veggirnir á kofanum okkar hefði hrunið, ég var viss um að barnið mitt væri dáið,“ sagði hin 24 ára gamla móðir. Hún segist hafa grátið af gleði þegar hún sá drenginn og hundinn koma upp á hæðina.

Selvakumar er ósköp venjulegur hundur, gulbrúnn og geltir aldrei. Hann leikur sér með strákunum þremur og heimtar að fá að liggja hjá fjölskyldunni á nóttunni sama hversu oft þau henda honum út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert