SÞ hafa fengið 1,5 milljarða dala til hjálparstarfs við Indlandshaf

Tamdir fílar hafa komið í góðar þarfir við að hreinsa …
Tamdir fílar hafa komið í góðar þarfir við að hreinsa til eftir hamfarirnar í Aceh héraði í Indónesíu. AP

Framlög, sem borist hafa til Sameinuðu þjóðanna vegna hjálparstarfs á hamfarasvæðunum við Indlandshaf, nema nú um 1,5 milljörðum dala, jafnvirði 92 milljarða króna. Segir Elisabeth Byrs, talsmaður Mannúðarskrifstofu SÞ, að jafn há framlög á jafn stuttum tíma eigi sér ekki fordæmi en um sé að ræða álíka upphæð og SÞ fái venjulega til umráða á ári til hjálparstarfa.

Hún sagði, að inni í þessari upphæð væru ekki lán, eins og Alþjóðabankinn og Þróunarbanki Asíu hafa boðið fram, og ekki lyf og hjálpargögn, sem ríki hafa boðið löndum við Indlandshaf beint.

Að minnsta kosti 156 þúsund manns létu lífið af völdum jarðskjálfta og flóðbylgna 26. desember. Tala látinna hækkaði um 14 þúsund í dag þegar Indónesíustjórn tilkynnti 94 þúsund manns að minnsta kosti hefðu látið lífið þar í landi. Milljónir manna eru heimilislausar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert