Svíar senda birgðir sínar af bóluefni gegn kóleru til Indlands og Sri Lanka

Fórnarlömb flóðbylgjunnar í búðum fyrir flóttamenn sem komið hefur verið …
Fórnarlömb flóðbylgjunnar í búðum fyrir flóttamenn sem komið hefur verið upp í skóla í strandbænum Batticaloa á Sri Lanka. ap

Svíar hafa ákveðið að senda birgðir sínar af bóluefni gegn kóleru - alls um 200.000 skammta - til Indlands og Sri Lanka til að hjálpa til við að sporna við því að þar brjótist veikin út meðal þeirra sem komust lífs af eftir náttúruhamfarirnar á annan dag jóla og verði að faraldri.

Svíar munu vera eina ríki heims sem á birgðir af Dukoral, drekkanlegu bóluefni og eru þær sagðar duga til að meðhöndla um 200.000 manns, að sögn ráðuneytis þróunarmála í Stokkhólmi.

Gert er ráð fyrir að birgðirnar verði komnar til áfangastaða í Indlandi og á Sri Lanka innan 10 daga.

Yfir 150.000 manns fórust af völdum flóðbylgju sem risastór jarðskjálfti undan Súmötru í Indónesíu kom af stað. Milljónir manna misstu heimili sín í náttúruhamförunum.

Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) hafa látið í ljós ótta um að kólera og aðrir smitsjúkdómar kunni að brjótast út á hamfarasvæðunum og jafnvel dregið til dauða álíka marga og flóðbylgjan gerði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert