Taílensk fórnarlömb flóðbylgna segjast litla hjálp hafa fengið

Fíll tekur þátt í hreinsunarstarfi við Khao Lak ströndina í …
Fíll tekur þátt í hreinsunarstarfi við Khao Lak ströndina í gær. AP

Íbúar sumra svæða á strönd Taílands sem eru í rúst eftir flóðbylgjur sem þar urðu á annan dag jóla segja að þeir séu sniðgengnir í hjálparaðgerðum vegna flóðanna, en þær beinist nær eingöngu að stöðum sem voru fjölsóttir af erlendum ferðamönnum.

Fjölmargir bráðaliðar, hermenn og sjálfboðaliðar hafi fínkembt rústir ferðamannastaða á Khao Lak ströndinni í Phang Nga héraði, þar sem ferðamenn voru í hópi mörg þúsund fórnarlamba flóðbylgnanna.

Í þorpinu Mai Lai, þar sem múslimar búa, og er um 30 kílómetrum sunnar, hafi á hinn bóginn lítið verið um björgunar- og endurreisnarstarf, að því er þorpsbúar segja. „Við þurfum verulega á meiri peningum að halda,“ sagði Wantana Phongsangwan, ein þeirra sem skipuleggur neyðaraðstoð á staðnum við AFP-fréttastofuna seint í gærkvöldi. „Það sem við höfum núna hefur örlátt fólk á svæðinu látið okkur hafa, en hvert heimili fær þó aðeins 500 baht (um 770 íslenskar krónur) til aðstoðar,“ segir hún.

„Við vorum mjög heppin. Af 175 húsum eyðilögðust um 170 en mjög fáir létust,“ bætir hún við. „Það þýðir hins vegar að hér er margt heimilislaust fólk sem þarfnast tafarlausrar aðstoðar.“

Wantana sagði að embættismenn hefðu heimsótt bæinn daginn eftir flóðbylgjuna, en lítil hjálp hefði borist þangað.

Taílensk stjórnvöld segja að um 5.000 manns hafi farist af völdum hamfaranna þar í landi og að um helmingur þeirra sem fórust hafi verið ferðamenn.

í fiskimannaþorpinu Baan Nam Khem, norður af Khao Lak, varð einnig mikið tjón af völdum hamfaranna. Lögregla segir að um helmingur þorpsbúa, sem voru um 5.000 fyrir flóðin, sé saknað. Óttast sé að fólkið hafi farist. Fiskimaður í þorpinu sem AFP-fréttastofan ræddi við sagði að enginn hefði komið þorpsbúum til hjálpar. „Maður sem er héðan hringdi í sjónvarpsstöð á miðvikudag og sagði þeim að hér væri allt í rúst, en enginn hefur komið okkur til hjálpar,“ sagði maðurinn, sem sagðist heita Nopporn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert