Talið að allt að 200 Bretar hafi látist í Asíu

Talið er að 200 Bretar hafi látist í náttúruhamförunum. Á …
Talið er að 200 Bretar hafi látist í náttúruhamförunum. Á myndinni er verið að afhenda hjálpargögn í Indónesíu. AP

Talið er allt að 200 Bretar hafi látist í náttúruhamförunum í Asíu, að sögn Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands. Staðfest hefur verið að 40 Bretar fórust en lögreglan í London hefur birt lista með nöfnum 159 Breta til viðbótar sem talið er „mjög líklegt“ að hafi látist. Þetta er í fyrsta sinn sem bresk stjórnvöld tjá sig opinberlega um mannfall breskra borgara í náttúruhamförunum.

Straw segir að flestir þeirra sem talið er að hafi látist hafi verið á Tælandi. Af þeim 40 sem vitað er að létust voru átta á Srí Lanka, þrír á Maldív-eyjum og 29 á Tælandi og hefur hópur breskra lögregluþjóna verið sendur til Tælands til að bera kennsl á lík hinna látnu.

Bresk stjórnvöld hafa gefið 50 milljónir punda, andvirði tæplega 6 milljarða íslenskra króna, til hjálparstarfa vegna náttúruhamfaranna. Straw sagði næstum öruggt að sú upphæð yrði hækkuð upp í 60 milljónir punda, rúmlega 7 milljarða króna.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sneri heim í gær úr fríi í Egyptalandi en hann var þar þegar hamfarirnar urðu. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt forsætisráðherrann fyrir að hafa ekki komið fyrr heim og sagði Michael Howard, formaður Íhaldsflokksins, að hann hefði sjálfur snúið heim úr slíku fríi væri hann forsætisráðherra. Jack Straw varði hins vegar ákvörðun forsætisráðherrans og sagði hann hafa verið í stöðugu sambandi við sjálfan sig og aðra í ríkisstjórninni.

„Er eitthvað sem breska ríkisstjórnin hefði átt að gera sem hún hefur ekki gert, óháð því að forsætisráðherrann hefur verið í útlöndum? Svarið við því er nei,“ sagði Straw.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert