Voru á Taílandi fyrir tveimur árum en samt á lista yfir þá sem var saknað

Norsk stjórnvöld birtu í dag lista með nöfnum þeirra Norðmanna sem saknað var á Taílandi eftir hamfarirnar 26. desember. Ljóst er að listinn er afar ófullkominn og á honum var m.a. fjölskylda, sem var á ferðalagi á Taílandi fyrir tveimur árum en dvaldi heima í Noregi um þessi jól.

Ziegler-fjölskyldan frá Vestvold var m.a. á listanum og hún segist í samtali við norska netmiðilinn Nettavisen ekki skilja hvers vegna svo sé.

„Félagi minn hringdi í mig um hádegið og sagði að ég væri á listanum. Mér krossbrá. Hann sagði að það væri gott að heyra í mér því hann varð óttasleginn," sagði Fredrik Ziegler, 16 ára, við Nettavisen. Auk Fredriks voru nöfn 14 ára bróður hans og móður þeirra á listanum.

Fjölskyldan segist ekki skilja hvers vegna hún hafi komist á þennan lista enda séu tvö ár síðan hún var á Taílandi. Fjölskyldan hafði ákveðið að fara til Taílands aftur í febrúar en hefur nú afpantað ferðina.

Þá er á nafnalistanum fólk sem þegar hafði látið norska utanríkisráðuneytið vita að það væri óhult.

Frá því listinn var birtur í dag hefur tala þeirra sem saknað er lækkað úr 279 í 150.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert