Lík sex Svía, sem fórust á Taílandi, flutt heim

Sænskir björgunarmenn og ættingjar bera kistu inn í flutningavélina á …
Sænskir björgunarmenn og ættingjar bera kistu inn í flutningavélina á flugvellinum í Bangkok í morgun. AP

Kistur sex Svía, sem fórust í náttúruhamförunum við Indlandshaf 26. desember, eru nú á leið frá Taílandi til Svíþjóðar um borð í Hercules flutningaflugvél frá sænska hernum. Von er á vélinni til Arlandaflugvallar við Stokkhólm klukkan 22 í kvöld að íslenskum tíma og munu Karl Gústaf, Svíakonungur, Silvía drottning og Göran Persson, forsætisráðherra, taka á móti henni þar.

Sænsk stjórnvöld sögðu í dag að staðfest væri að 52 Svíar hefðu farist, 827 væri saknað og talið væri að 1495 Svíar til viðbótar hefðu verið staddir á hamfarasvæðunum. Enn stendur yfir leit að líkum þeirra sem fórust í Taílandi en embættismenn segja, að það gæti tekið mánuði að finna þau, bera tannlæknaskýrslur saman við tennur og gera aðrar rannsóknir til að bera á þau kennsl.

Bæði sænsk og norsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast of seint við hamförunum við Indlandshaf þegar það sé haft í huga hve margir ferðamenn frá þessum löndum voru staddir á svæðinu, einkum á Taílandi. Norsk stjórnvöld hafa einnig verið gagnrýnd fyrir lélegar upplýsingar um Norðmenn á svæðinu. Um tíma sagði utanríkisráðuneyti landsins að allt að 1400 Norðmanna væri saknað en sú tala lækkaði verulega eftir að nafnalisti var birtur á Netinu og nú er staðfest að 16 létu lífið og 91 er saknað, þar á meðal 26 barna.

Um 60 Dana er nú saknað en ríkislögreglustjóraembætti landsins segir að ekki sé vitað um ferðir 100 til viðbótar. Staðfest var að sjö Danir létu lífið.

Sænska ríkislögreglustjóraembættið mun taka yfir meðferð á nafnalistum yfir þá Svía sem saknað er af utanríkisráðuneytinu. Embættið sagðist hins vegar ekki ætla að birta listann opinberlega vegna þess að hætta væri á því að brotist yrði inn í hús þeirra sem saknað er. Slíkir listar hafa hins vegar verið birtir í Danmörku, Finnlandi og Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert