Slys á flugvelli á Súmötru tefur hjálparstarf

Bandarískar herflugvélar á leið til Súmötru í gær.
Bandarískar herflugvélar á leið til Súmötru í gær. AP

Hjálparstarf á eyjunni Súmötru í Indónesíu, sem varð afar illa úti af völdum jarðskjálfta og flóða á annan dag jóla, tafðist í dag vegna slyss á eina flugvelli eyjunnar í Banda Aceh. Óhappið varð með þeim hætti að flugvél sem þar var að lenda með birgðir ók á nautgrip á flugbrautinni. Mikið liggur á að koma birgðum til nauðstaddra sem búa afskekktast á svæðinu og er flugvöllurinn afar mikilvægur til þess að það megi takast. Sameinuðu þjóðirnar óttast að þegar hjálparstarfsmenn hafa metið skemmdir af völdum hamfaranna á vesturströnd Indónesíu muni talan yfir fjölda látinna „margfaldast“.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú kominn til flóðasvæðanna. Hann hefur heitið fullum stuðningi Bandaríkjamanna við hjálparstarf vegna skjálftanna og flóðanna. Þessu lofaði Powell er hann var staddur í Taílandi við upphaf heimsóknarinnar. Hann mun svo sækja ráðstefnu um hamfarirnar í Jakarta í Indónesíu á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert