Utanríkisráðherrar ESB-ríkja funda um hamfarir í Asíu

Monique Tello, barnalæknir frá Yale háskóla í Bandaríkjunum rannsakar litla …
Monique Tello, barnalæknir frá Yale háskóla í Bandaríkjunum rannsakar litla stúlku sem lenti í flóðum á Sri Lanka á annan dag jóla. AP

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins (ESB), ásamt ráðherrum á sviði neyðaraðstoðar- og heilbrigðismála, munu í vikunni halda skyndifund vegna aðstoðar við ríki á flóðasvæðum í Asíu, að því er embættismenn skýrðu frá í dag.

Áður hafði aðeins verið skýrt frá því að ráðherrar neyðaraðstoðar og þróunarmála innan ESB myndu sækja fundinn.

„Utanríkisráðherrar, ráðherrar þróunarsamvinnu og heilbrigðisráðherrar innan ESB munu taka þátt í fundinum,“ sagði í tilkynningu vegna fundarins frá Lúxemborg, sem nú gegnir formennsku innan sambandsins.

Á fundinum mun Louis Michel, sem fer með hjálparstarf innan framkvæmdastjórnar ESB og Jean-Louis Schiltz, þróunarmálaráðherra Lúxemborgar, kynna skýrslur um málið. Þeir eru nú staddir á hamfarasvæðunum, að því er einnig greint var frá hjá ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert