12 ára Svíi sem leitað er í Taílandi gekkst ekki undir meðferð á sjúkrahúsi

Kristian Walker á mynd sem fjölskylda hans birti af honum …
Kristian Walker á mynd sem fjölskylda hans birti af honum eftir hamfarirnar. AP

12 ára gamall sænskur drengur, fórnarlamb flóðbylgna í Taílandi á annan dag jóla, gekkst aldrei undir meðferð á taílensku sjúkrahúsi, að því er heilbrigðisráðuneyti Taílands greindi frá í dag. Drengur svipaðs útlits og sænski drengurinn, Kristian Walker, sást yfirgefa Taimung sjúkrahúsið í Phang Nga héraði degi eftir að flóðbylgjurnar skullu á.

Var hann í för með erlendum manni. Faðir drengsins óttast að honum hafi verið rænt.

Lögregla sagði í dag að Þjóðverjinn Stephan Kaley hefði verið hreinsaður af sökum um að hafa rænt drengnum eftir að lögregla yfirheyrði hann. Vichai Boonruen, hjá taílensku lögreglunni, sagði, að lögregla hefði sannreynt framburð Kaleys, sem kvaðst hafa aðstoðað tvo þýska drengi við að finna foreldra sína og sænskt ungmenni við að finna móður sína eftir hamfarirnar.

„Við höfum útilokað þann möguleika að þessi maður hafi rænt nokkrum,“ sagði Vichai.

Vichai Thienthavorn, embættismaður í taílenska heilbrigðisráðuneytinu, sagði, að Kristian hefði aldrei komið á Taimung eða önnur sjúkrahús í Taílandi. Þetta hefði verið staðfest með því að kanna hvort sjúklingur með þessu nafni hefði komið á þau. Hefði svo ekki reynst vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert