Bjargað eftir átta daga á reki á trjábol

Rizal Shahputra veifar til skipsins sem bjargaði honum.
Rizal Shahputra veifar til skipsins sem bjargaði honum. AP

Indónesíumaður, sem barst út á haf í útsogi flóðbylgjunnar miklu á annan dag jóla, fannst á mánudagskvöld á floti á sjónum á trjábolum og braki um 100 sjómílur frá strönd Súmötru. Hafði hann þá verið á reki í átta daga í Indlandshafi.

Rizal Sapura, 23 ára, var bjargað um borð í gámaskip frá Malasíu á mánudagskvöld. Adrian Arukiasamy, talsmaður fyrir útgerð skipsins sagði að áhöfnin hefði séð manninn halda sér í trjáboli og brak sem var á reki í sjónum. „Það gengur kraftaverki næst að hann skyldi lifa af," sagði Arukiasamy.

Rizal var veikburða og hafði fengið taugaáfall. Hann var fluttur á sjúkrahús þegar skipið kom til hafnar í Malasíu í morgun. Rizal hafði slökkt þorstanum með því að drekka regnvatn.

Á föstudag fann túnfiskveiðibátur frá Malasíu indónesíska konu, sem hafði rekið um Indlandshaf í fimm daga á pálmatré. Konan, sem heitir Malawati og er 23 ára, var flutt á sjúkrahús í Malasíu á mánudag. Embættismenn sögðu að hún hefði sár eftir fiskabit og hefði fengið taugaáfall en hún hafði nærst með því að borða trjábörk og kókoshnetur af trénu.

Verið er að leita að eiginmanni Malawati sem hefur verið saknað frá því flóðbylgjan skall á strönd Súmötru 26. desember.

Myndir Sverris Vilhelmssonar frá Taílandi

Rizal Shahputra ræðir við blaðamenn í sjúkrabíl eftir að hann …
Rizal Shahputra ræðir við blaðamenn í sjúkrabíl eftir að hann kom í land í Malasíu. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert