FIFA og AFC gefa fé til uppbyggingar í Asíu

Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA og knattspyrnusamband Asíu, AFC, hyggjast gefa um tvær milljónir dollara, andvirði um 125 milljóna króna, til uppbyggingar í Suðaustur-Asíu. Peningarnir munu renna til knattspyrnusamtaka á svæðinu og er ætlað að endurreisa knattspyrnuvelli og útvega búnað til að leika knattspyrnu. Samtökin vinna einnig að því að fá knattspyrnusamtök aðildarríkjanna til að láta fé af hendi rakna til uppbyggingarinnar, t.d með því að standa fyrir góðgerðarleikjum eða gefa útbúnað.

Peningarnir fara til Bangladesh, Indlands, Indónesíu, Malasíu, Maldív-eyja, Myanmar, Srí Lanka og Tælands.

FIFA og AFC hyggjast ennfremur leita til þekktra knattspyrnumanna, einkum þeirra sem lagt hafa skóna á hilluna, og biðja þá um að taka þátt í að dreifa hjálpargögnum á svæðinu.

Í fréttatilkynningu segir að þegar neyðaraðgerðum á hamfarasvæðinu lýkur og fórnarlömbum hefur verið bjargað hyggist samtökin skipuleggja knattspyrnuleiki í Suðaustur-Asíu til að sýna samstöðu og stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert