IMF leggur milljarð dollara til uppbyggingar á hamfarasvæðunum

Fórnarlömb flóðbylgjunnar reisa hús í Devanahpattinam í ríkinu Tamil Nadu …
Fórnarlömb flóðbylgjunnar reisa hús í Devanahpattinam í ríkinu Tamil Nadu á Indlandi. ap

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) er reiðubúinn að leggja til einn milljarð dollara til hjálpar- og uppbyggingarstarfs á hamfarasvæðunum við Indlandshaf, að sögn Rodrigo Rato framkvæmdastjóra sjóðsins.

„IMF er reiðubúinn að veita löndunum sem fyrir barðinu á flóðbylgjunni urðu fjárhagslega aðstoð, fyrst um sinn úr sjóð sem veitir neyðaraðstoð vegna náttúruhamfara. Þar gæti orðið um milljarð dollara að ræða fyrir ríkin sem urðu verst úti,“ sagði Rato.

Hann sagði að enn væri eftir að meta með einhverri vissu hver fjárþörf ríkjanna á hamfarasvæðunum væri. Hann sagði að þau mál yrðu rædd á ríkjafundi er hæfist á morgun í Jakarta í Indónesíu.

Jan Egeland, yfirmaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna (SÞ), segir að ríki heims, almenningur og einstaklingar hafi nú heitið milli þremur og fjórum milljörðum dollara til hjálparstarfs og endurreisnar á hamfarasvæðunum.

„Við höfum aldrei séð heimsbyggðina sameinast með jafn afdrifaríkum hætti,“ sagði Egeland rétt eftir að Ástralir höfðu heitið sem svarar 760 milljónum dollara og Þýskaland 668 milljónum en áður en framkvæmdastjóri IMF hét milljarði dollara.

Egeland sagði erfitt að henda reiður á öll framlögin sem streymdu inn en sagðist binda vonir við að stofnun sín stæði undir því hlutverki sem henni hefði verið falið.

Þá sagði talsmaður Evrópusambandsins (ESB) síðdegis að ESB myndi auka framlag sitt um 100 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert