Lík sex Svía flutt frá Taílandi til Stokkhólms

Kisturnar á Bangkokflugvelli í gær.
Kisturnar á Bangkokflugvelli í gær. AP

Lík sex Svía, sem létu lífið í náttúruhamförunum við Indlandshaf á annan dag jóla, voru flutt frá Taílandi til Stokkhólms í gær með sænskri herflutningavél. Vélin lenti á Arlandaflugvelli um klukkan 2 í nótt að íslenskum tíma og tók Karl Gústaf, konungur, og fleiri úr sænsku konungsfjölskyldunni, Göran Persson, forsætisráðherra, Björn van Sydow, forseti sænska þingsins og KG Hammar, biskup Svíþjóðar á móti henni á flugvellinum.

Kisturnar voru sveipaðar sænska fánanum, en það er venjulega aðeins gert þegar um er að ræða útfarir á vegum sænska ríkisins eða hersins.

Varðliðar báru kisturnar út úr Hercules flutningavélinni, eina og eina í senn, og komu þeim fyrir í sex líkbílum. Biskupinn fór með stutta bæn og að henni lokinni lögðu ættingjar blóm á kisturnar.

Engin ávörp voru flutt en Persson sagði fyrr í gær á blaðamannafundi að þetta yrði tilfinningaþrungin stund. „Við erum ekki vanir því að sjá Svía koma heim í líkkistum," sagði hann.

Áður hafa kistur eins Hollendings, þriggja Ítala og eins Belga verið fluttar heim.

Þjóðarsorg var lýst yfir í Svíþjóð og Noregi 1. janúar vegna hamfaranna í Asíu og til að minnast þeirra sem létu lífið. Þjóðarsorg var í Danmörku 2. janúar. Í dag verður 3 mínútna þögn á hádegi til að minnast hinna látnu, í öllum löndum Evrópusambandsins, nema Danmörku en þar verða fánar dregnir í hálfa stöng. Er þögnin að frumkvæði Lúxemborgar sem fer með formennsku í Evrópusambandinu um þessar mundir.

Göran Persson tilkynnti í gær að hann ætlaði að fara til Taílands 16.-19. janúar ásamt Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, og Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, til að ræða uppbyggingu og mannúðaraðstoð við þarlenda embættismenn.

Karl Gústaf, Svíakonungur, hefur einnig sagt að hann áformi að fara til Taílands til að þakka Bhumibol Adulyadej, konungi, og þegnum hans þá aðstoð sem þeir veittu Svíum í landinu í kjölfar náttúruhamfaranna.

Norrænu ríkisstjórnirnar ætla einnig að birta sameiginlega auglýsinga í taílenskum blöðum þar sem taílensku þjóðinni verða veittar þakkir.

Myndir Sverris Vilhelmssonar frá Taílandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert