Meira en þriðjungur Svía tengist hamförum í Asíu með einum eða öðrum hætti

Kistur með líkum sænska ferðamanna á Bangkokflugvelli í gær.
Kistur með líkum sænska ferðamanna á Bangkokflugvelli í gær. AP

Meira en þriðjungur Svía, eða um 2,8 milljónir manna, tengjast með einum eða öðrum hætti hamförunum í Indlandshafi á annan dag jóla, að því er könnun sem birt er í dag leiðir í ljós.

Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag að talan yfir látna Svía eftir hamfarirnar væri enn 52. 702 væri saknað og hefur tala þeirra lækkað um tæplega 500.

Fjórir af hverjum 10 Svíum tengjast hamförunum með persónulegum hætti að einhverju leyti í gegnum foreldra, samstarfsmann eða vin, að því er fram kemur í könnun Sifo stofnunarinnar fyrir sænska ríkissjónvarpið.

Persson sagði eftir hamfarirnar að þær væru „sennilega hinar verstu á okkar tímum og þær munu hafa áhrif á sænskt þjóðlíf í langan tíma.“

Sifo spurði einnig í könnuninni hvernig fólki þættu sænsk stjórnvöld hafa staðið sig eftir hamfarirnar. Þær niðurstöður verða birtar síðar í dag í þætti sem Laila Freivalds, utanríkisráðherra, mun taka þátt í. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa verið sein að bregðast við eftir að hamfarirnar áttu sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert