Powell á flóðasvæðum í Indónesíu: Meiri eyðilegging en í stríði

Colin Powell og Jeb Bush, ríkisstjóri í Flórída, í Banda …
Colin Powell og Jeb Bush, ríkisstjóri í Flórída, í Banda Aceh í Aceh héraði í Indónesíu í dag. AP

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór í dag í þyrlu um þau svæði sem verst urðu úti í jarðskjálftum og flóðbylgjum í Indónesíu á annan dag jóla. Var honum brugðið þegar hann sá þá eyðileggingu sem flóðin hafa valdið, að því er Reuters greinir frá.

„Ég hef tekið þátt í stríði og einnig fylgst með hjálparaðgerðum, meðal annars í kjölfar fellibylja og skýstróka, en ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Powell eftir að hann skoðaði skemmdir á norðvesturströnd Súmötru.

„Ég get ekki ímyndað mér hversu hrikalegt það hefur verið fyrir fjölskyldur og alla aðra að heyra hávaðann nálgast og verða skömmu síðar bylgjunni að bráð,“ sagði Powell.

Eftir þyrluferðina hélt Powell til Jakarta, höfuðborgar Indónesíu, en þar munu hann og ýmsir aðrir þjóðarleiðtogar sækja ráðstefnu á morgun um hjálparstarf á flóðasvæðunum.

Eyðileggingin á Súmötru er mikil. Hér situr 22 ára gömul …
Eyðileggingin á Súmötru er mikil. Hér situr 22 ára gömul kona við hús ömmu sinnar, en hennar er saknað eftir flóðin á annan í jólum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert