Segir ekki víst að sænskum dreng hafi verið rænt eftir hamfarir í Taílandi

Daniel Walker, afi Kristian, með mynd af barnabarni sínu á …
Daniel Walker, afi Kristian, með mynd af barnabarni sínu á hótelherbergi í Phanga í Taílandi á sunnudag. AP

Ekki er víst að tólf ára gömlum sænskum dreng, sem talið er að horfið hafi af taílensku sjúkrahúsi eftir hamfarir þar í landi á annan dag jóla, hafi verið rænt eins og faðir hans óttast. Þetta sagði Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Taílands í dag.

Taílenska og sænska lögreglan leita nú hins 12 ára gamla Kristian Walker, en samkvæmt fréttum sænskra og breskra fjölmiðla kann honum að hafa verið rænt af sjúkrahúsi í Taílandi. Blaðið Times hafði eftir Dan Walker, bandarískum föður drengsins, að hann óttaðist að barnaníðingar hefðu rænt syni sínum.

„Við erum að rannsaka málið og ef mannrán hefur átt sér stað getum við fundið þá [ræningjana],“ sagði Thaksin við blaðamenn. „Ég hef hins vegar ekki frétt af því að hópar sem stunda mansal hafi komið til Taílands. Ekki er víst að um glæpagengi hafi verið að ræða. Verið getur að einhver sem fann til samúðar með drengnum hafi viljað annast hann,“ sagði Thaksin. „Ef einhver annast drenginn, ætti viðkomandi að skila honum, eða eiga ellegar yfir höfði sér að verða sóttur til saka,“ bætti hann við.

Kristian var í leyfi í Khao Lak í suðvesturhluta Taílands ásamt móður sinni Madeleine Walker, 14 ára bróður sínum og sjö ára systur, þegar flóðbylgjurnar skullu á 26. desember sl. Móður hans er saknað og talið er að hún hafi farist, en faðir barnanna, Dan Walker, hraðaði sér til Taílands frá Stokkhólmi. Hann fann systkini Kristians á sjúkrahúsi en Kristian fannst hins vegar ekki.

Fram kom í frétt Times um málið að tveir læknar og hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi á svæðinu hefðu þekkt Kristian af mynd sem þeim var sýnd af honum. Sagði fólkið að þau hefðu séð hann degi eftir hamfarirnar. Hann hefði verið í för með miðaldra evrópskum manni með dökkt hár og yfirvaraskegg.

Somsak Buppasuwan, yfirmaður í taílensku lögreglunni sagði í gær að hugsanlegt væri um misskilning að ræða. Hann sagði að læknar á sjúkrahúsinu hefðu sagt föður drengsins að þeir hefðu séð barn sem líktist syni hans, en ekki að þeir væru þess vissir að hafa séð drenginn.

Myndir Sverris Vilhelmssonar frá Taílandi

Dan Walker, faðir Kristian, og systkini hans, Anna og David …
Dan Walker, faðir Kristian, og systkini hans, Anna og David á heimili sínu í Stokkhólmi í vikunni. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert