Bandaríkin samþykkja að vinna undir stjórn SÞ á hamfarasvæðum í Asíu

Heimilislaust fólk bíður eftir matargjöfum í neyðarbúðum í Galle á …
Heimilislaust fólk bíður eftir matargjöfum í neyðarbúðum í Galle á Sri Lanka í dag. AP

Bandaríkin tilkynntu í dag að þau ætluðu að leysa upp hóp nokkurra ríkja sem þau mynduðu til þess að koma neyðaraðstoð til fórnarlamba hamfara í Asíu og vinna í stað þess undir yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna að hjálparstarfinu. Þetta kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um hjálparstarf á flóðasvæðunum sem fram fer í Jakarta í Indónesíu í dag. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði jafnframt á ráðstefnunni að Bandaríkin myndu líklega auka framlag sitt til aðstoðar en nefndi þó ekki um hversu háa fjárhæð yrði að ræða.

Bandaríkin hafa þegar lofað að leggja fram 350 milljónir dala til starfsins, en sú upphæð samsvarar um 22,5 milljörðum íslenskra króna.

Bandaríkin efndu í síðustu viku til samstarfs við Indland, Japan og Ástralíu um dreifingu hjálpargagna, en hafa nú ákveðið að vinna undir stjórn SÞ. Powell sagði að þessi hópur hefði unnið að því að hvetja til alþjóðlegra viðbragða við hamförunum en því verkefni væri nú lokið.

Stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta myndaði hópinn eftir að hún var gagnrýnd fyrir hæg viðbrögð við hamförunum í Indlandshafi, sem orðið hafa um 150.000 manns að bana.

Sumir litu svo á að hópurinn, sem Kanada og Hollendingar tilkynntu síðar um þátttöku í, væri í samkeppni við SÞ, sem hefur venjulega leitt alþjóðlegar aðgerðir þegar náttúruhamfarir verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert